Unnur Guðrún Óttarsdóttir

Menu Close

Category: Íslenska (page 1 of 1)

Um mig

Á fræða- og starfssviðum mínum fæst ég við listir, nám, meðferðir og rannsóknir. Ég hef tileinkað mér hvert þessara sviða og í sumum tilfellum tengi ég þau saman sem getur leitt til nýrra og óvæntra uppgötvana.

Í listmeðferð fléttast saman myndlist og sálfræði. Námslistmeðferð og minnisteikningar þætta saman nám, meðferð og listir. Listir og rannsóknir tengjast í rannsóknum með list. Í sumum listaverkum mínum blanda ég saman listmeðferð og myndlist en í öðrum listaverkum nota ég íslenskt hraun og er þá að fást við tengingar við náttúruna og sköpunarkraftinn.

Ég leitast við að kynna mér og nýta þekktar meðferðar- og kennsluaðferðir ásamt því að koma fram með nýjar aðferðir sem miða að því að manneskjan komist í snertingu við sjálfa sig, læri og finni eigin styrk. Í mörgum tilfellum leitast ég við að brjóta upp þá hugmyndafræði sem fyrirrennarar mínir hafa lagt til fræðanna og vísindanna hver á sínu sviði en slíkt fæðir oft af sér nýjar aðferðir í síbreytilegum heimi þar sem krafan um skilning á samhæfingu ólíkra fræðasviða fer vaxandi.

Stutta umfjöllun um hvert fræða- og starfssvið er að finna hér fyrir neðan.  Til að fá nánari upplýsingar um hvert svið smellið á hnappinn „skoða vefsíðu“.

Njótið með mér ferðalagsins um landslag lista, náms, meðferða og rannsókna.

Hafðu samband

Listmeðferð

Allt frá æskuárum mínum hefur listsköpun verið mér uppspretta ánægju. Línur, snerting við leir, ýmsar litasamsetningar ásamt ólíkum birtingarmyndum forma hafa aukið tilfinningu fyrir því hver ég er, sem stuðlar að ró, styrk og vellíðan. Ég hef löngun til veita öðrum listsköpunarreynslu af þessu tagi með það að markmiði að stuðla að styrk þeirra og vellíðan. Ég hef alltaf haft áhuga á því hvernig fólki líður, hvað gerir persónuna að því sem hún er, hvers vegna einstaklingar haga sér eins og þeir gera og hvernig hægt sé að bæta líðan fólks. Listmeðferð hæfir mér einstaklega vel því þar sameinast viðfangsefni af þessu tagi og listsköpun.

Skoða vefsíðu

Námslistmeðferð

Listsköpun, nám og tilfinningaúrvinnsla, sem eru meginþættir námslistmeðferðar, hafa fleytt mér áfram og gert mér kleift að læra og miðla því sem ég óska mér. Skólanám gat vafist fyrir mér á mínum yngri árum. Eftir því sem tíminn leið öðlaðist ég trú á að ég gæti auðveldlega lært allt það sem mig langaði til. Ég leitaði ýmissa leiða til að ná þeim markmiðum. Sú leit, nám mitt og rannsóknir, ásamt börnunum sem ég hef aðstoðað við nám og bætta líðan, hefur varðað leiðina að þeim aðferðum sem námslistmeðferð býður upp á. Ég hef lokið doktorsnámi í námslistmeðferð og birt greinar í tímaritum og bókum á mínu fræða- og vísindasviði.

Skoða vefsíðu

Minnisrannsóknir

Fyrir um tuttugu árum hafði ég hvorki heyrt né lesið um að teikningar efldu minni en ég trúði því að svo væri. Ég gerði fyrst tilraunir á sjálfri mér þar sem ég teiknaði minnisatriði; síðan fékk ég fjölskyldu, vini og skjólstæðinga til að teikna í þeim tilgangi að muna og þá varð ég þess vör að teikningar virtust efla minni. Þessar tilraunir urðu mér hvatning til að gera kerfisbundna rannsókn sem 134 börn tóku þátt í árið 2000 og kannaði ég þá markvisst áhrif teiknaðra mynda, samanborið við áhrif skrifaðra orða, á minni. Í rannsókninni kom í ljós að teiknaðar myndir voru almennt miklu betur til þess fallnar að efla langtímaminni en skrifuð orð. Að níu vikum liðnum mundu þátttakendur í rannsókninni að jafnaði fimm sinnum fleiri orð sem þeir höfðu teiknað en þau sem þeir höfðu skrifað. Rannsóknin er sú fyrsta og eina í heiminum, sem vitað er um, þar sem áhrif teikninga og orða á langtímaminni eru borin saman yfir svo langan tíma.

Skoða vefsíðu

Rannsóknir með list

Teikningar og tilfinningaúrvinnsla fleyta mér og rannsóknum mínum áfram. Línur, orð, örvar, ferhyrningar og hringir á tvívíðu plani skýra ýmsar hliðar á rannsóknarviðfangsefnum, opna hugann, móta hugsunina og gera tengingar sýnilegar ásamt því að hjálpa mér að þróa kenningar. Einnig nota ég liti, form og pensilstrokur á víðum fleti sem skapa dýpri skilning á mismunandi viðfangsefnum. Ýmsar tilfinningar kvikna og koma upp á yfirborðið í vinnu rannsakandans. Þær geta tengst viðfangsefnum rannsókna beint og um leið haft tengingu við persónulega reynslu og tilfinningar. Myndverk sem sköpuð eru í tengslum við tilfinningar af þessu tagi auðvelda úrvinnslu og flokkun tilfinninga sem stuðlar að því að rannsakandinn verði meðvitaðri um sjálfan sig og um leið hlutlausari gagnvart viðfangsefni rannsóknarinnar. Listsköpunin veitir þol fyrir óvissu og skapar rými fyrir myndun nýrrar þekkingar.

Skoða vefsíðu

Myndlist

Margar af mínum ánægjulegustu stundum í lífinu eru þegar ég skapa listaverk. Form, litir, pensilstrokur, tákn, myndir, skúlptúrar, tilraunir og rannsóknir hafa veitt mér möguleika til að sjá tilveruna og finna farveg til að tjá upplifun mína af henni á annan hátt en orð gera. Farvegur myndlistarinnar er táknrænn, myndrænn og í litum sem gefur möguleika á djúpri og óhlutbundinni tjáningu sem orð ná oft ekki yfir. Tilraunir mínar og rannsóknir sem fjalla um tengsl myndlistar og listmeðferðar hafa gert mér kleift að sjá nýjar hliðar á sjálfri mér og lífinu. Það veitir mér ánægju að sýna og deila myndlistarverkum mínum og veita þannig samferðamönnum mínum sams konar tækifæri til að sjá nýjar hliðar á sjálfum sér og tilverunni.

Skoða vefsíðu

Snortinn af Íslandi

Gagnkvæm tengsl milli fólks, innri tengingar og tengsl við náttúruna eru mér hugleikin. Íslensk náttúra er hrá og kraftmikil og í iðrum jarðar skapar ólgandi eldurinn hraunsteina. Úr íslensku hrauni bý ég til skartgripi og listaverk sem vísa til sköpunarkraftsins. Í hraunverkunum vinn ég með tengingar mínar við náttúruna og sköpunarkraftinn innra með mér. Þegar ég miðla þess konar upplifun til annarra veitist þeim tækifæri til að finna fyrir og tengjast eigin sköpunarkrafti ásamt því að samsama sig náttúrunni í gegnum upplifun af hraunlistaverkinu.

Skoða vefsíðu