Teikningar og tilfinningaúrvinnsla fleyta mér og rannsóknum mínum áfram. Línur, orð, örvar, ferhyrningar og hringir á tvívíðu plani skýra ýmsar hliðar á rannsóknarviðfangsefnum, opna hugann, móta hugsunina og gera tengingar sýnilegar ásamt því að hjálpa mér að þróa kenningar. Einnig nota ég liti, form og pensilstrokur á víðum fleti sem skapa dýpri skilning á mismunandi viðfangsefnum. Ýmsar tilfinningar kvikna og koma upp á yfirborðið í vinnu rannsakandans. Þær geta tengst viðfangsefnum rannsókna beint og um leið haft tengingu við persónulega reynslu og tilfinningar. Myndverk sem sköpuð eru í tengslum við tilfinningar af þessu tagi auðvelda úrvinnslu og flokkun tilfinninga sem stuðlar að því að rannsakandinn verði meðvitaðri um sjálfan sig og um leið hlutlausari gagnvart viðfangsefni rannsóknarinnar. Listsköpunin veitir þol fyrir óvissu og skapar rými fyrir myndun nýrrar þekkingar.