Listsköpun, nám og tilfinningaúrvinnsla, sem eru meginþættir námslistmeðferðar, hafa fleytt mér áfram og gert mér kleift að læra og miðla því sem ég óska mér. Skólanám gat vafist fyrir mér á mínum yngri árum. Eftir því sem tíminn leið öðlaðist ég trú á að ég gæti auðveldlega lært allt það sem mig langaði til. Ég leitaði ýmissa leiða til að ná þeim markmiðum. Sú leit, nám mitt og rannsóknir, ásamt börnunum sem ég hef aðstoðað við nám og bætta líðan, hefur varðað leiðina að þeim aðferðum sem námslistmeðferð býður upp á. Ég hef lokið doktorsnámi í námslistmeðferð og birt greinar í tímaritum og bókum á mínu fræða- og vísindasviði.