Margar af mínum ánægjulegustu stundum í lífinu eru þegar ég skapa listaverk. Form, litir, pensilstrokur, tákn, myndir, skúlptúrar, tilraunir og rannsóknir hafa veitt mér möguleika til að sjá tilveruna og finna farveg til að tjá upplifun mína af henni á annan hátt en orð gera. Farvegur myndlistarinnar er táknrænn, myndrænn og í litum sem gefur möguleika á djúpri og óhlutbundinni tjáningu sem orð ná oft ekki yfir. Tilraunir mínar og rannsóknir sem fjalla um tengsl myndlistar og listmeðferðar hafa gert mér kleift að sjá nýjar hliðar á sjálfri mér og lífinu. Það veitir mér ánægju að sýna og deila myndlistarverkum mínum og veita þannig samferðamönnum mínum sams konar tækifæri til að sjá nýjar hliðar á sjálfum sér og tilverunni.