Fyrir um tuttugu árum hafði ég hvorki heyrt né lesið um að teikningar efldu minni en ég trúði því að svo væri. Ég gerði fyrst tilraunir á sjálfri mér þar sem ég teiknaði minnisatriði; síðan fékk ég fjölskyldu, vini og skjólstæðinga til að teikna í þeim tilgangi að muna og þá varð ég þess vör að teikningar virtust efla minni. Þessar tilraunir urðu mér hvatning til að gera kerfisbundna rannsókn sem 134 börn tóku þátt í árið 2000 og kannaði ég þá markvisst áhrif teiknaðra mynda, samanborið við áhrif skrifaðra orða, á minni. Í rannsókninni kom í ljós að teiknaðar myndir voru almennt miklu betur til þess fallnar að efla langtímaminni en skrifuð orð. Að níu vikum liðnum mundu þátttakendur í rannsókninni að jafnaði fimm sinnum fleiri orð sem þeir höfðu teiknað en þau sem þeir höfðu skrifað. Rannsóknin er sú fyrsta og eina í heiminum, sem vitað er um, þar sem áhrif teikninga og orða á langtímaminni eru borin saman yfir svo langan tíma.